Uppáhalds súpan mín þessa dagana er þessi gulróta- og graskerssúpa með kókosmjólk. Hún er fullkomin sem forréttur eða léttur kvöldmatur og er afar holl. Það jafnast fátt á við heita súpu þegar kalt er í veðri, sérstaklega á haustin. Það er bara eitthvað við það! Þessa súpu geri ég oft og frysti í litlum skömmtum svo ég geti gengið að hollum kvöldmat vísum þegar ég kem seint heim eftir að hafa búið til krem allan daginn. Öll innihaldsefnin búa yfir sérstökum heilsusamlegum eiginleikum sem virka dásamlega saman í þessari súpu. Svo skemmir ekki fyrir að hún er vegan!

Gulrætur

Gulrætur eru frábær uppspretta beta-karótíns, sem er andoxunarefni sem líkaminn breytir A-vítamín. Þannig geta þær bætt augnheilsu. Þær eru líka trefjaríkar, sem er mikilvægt því trefjaríkur matur er góður fyrir meltinguna og getur komið í veg fyrir hægðatregðu. Hátt trefjainnihald gulróta getur líka bætt hjartaheilsu með því að fjarlægja umfram kólesteról. Gulrætur eru ríkar af pótassíum, sem getur lækkað blóðþrýsting með því að slaka á spennu í æðum.

Grasker

Grasker eru rík af andoxunarefnum sem draga úr oxunarálagi, sem getur hjálpað við að koma í veg fyrir krabbamein. Líkt og gulrætur eru grasker rík af beta-karótíni, sem getur veitt vörn gegn krabbameinsvaldandi efnum. Grasker eru líka góð uppspretta C-vítamíns, sem getur komið í veg fyrir ótímabæra öldrun. Þau eru líka trefjarík og hjálpa þannig meltingu og lækka blóðþrýsting. Grasker innihalda magnesíum, sem dregur úr líkunum á hjartaáfalli og þau hafa lága blóðsykursvísitölu svo þau geta komið jafnvægi á blóðsykurinn.

Hvítlaukur

Hvítlaukur er bakteríudrepandi og er einstaklega góður gegn hverskyns sýkingum, enda er afar löng hefð fyrir þeirri notkun. Áður fyrr var hann t.d. notaður gegn berklum og til að sótthreinsa sár og í báðum heimsstyrjöldunum sem vörn gegn blóðeitrun. Hann styrkir ónæmiskerfið og er góður gegn kvefi, flensum og eyrnabólgum. Eins er hann talinn vinna á sníkjudýrum í meltingarvegi og örva blóðrásina. Rannsóknir á hvítlauk hafa sýnt fram á góð áhrif hans á hjartað og hann er talinn veita vörn gegn æðakölkun og hjartasjúkdómum, lækka blóðþrýsting og blóðfitu, þynna blóð og draga úr líkum á hjartaáfalli. Rannsóknir hafa einnig bent til þess að hvítlaukur lækki blóðsykur og hamli vexti krabbameinsfrumna.

Engifer

Lækningamáttur engifers hefur verið þekktur frá örófi alda. Engifer er sérstaklega gott við hverskyns meltingartruflunum, svo sem uppþembu, krampa og vindverkjum. Engifer er einnig bakteríudrepandi og þykir gott við sýkingum í meltingarvegi og matareitrunum. Það hefur alla tíð þótt afar áhrifaríkt til að draga úr ógleði, en rannsóknir sýna fram á jákvæð áhrif þess gegn morgunógleði, bílveiki, ógleði eftir skurðaðgerðir og vegna krabbameinslyfja. Það örvar einnig blóðflæði og vermir kaldar hendur og fætur ásamt því að örva svitamyndun og slá á hita. Engifer hefur lengi verið vinsælt við hverskyns öndunarfærasýkingum, svo sem hósta, kvefi og flensu. Það er líka bólgueyðandi og gefst því vel við gigtarsjúkdómum. Þá hafa rannsóknir einnig leitt í ljós hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfrumna.

Túrmerik

Notkun túrmeriks sem krydd- og lækningajurtar er ævagömul, en undanfarin ár hafa margar vísindarannsóknir staðfest fjölbreyttan lækningamátt þess. Túrmerik inniheldur virka efnið curcumin sem hefur sterk bólgueyðandi og andoxandi áhrif. Í kínverskum grasalækningum er túrmerik talið gott til að koma reglu á tíðahringinn og draga úr fyrirtíðaspennu og einnig til að lækka blóðsykur. Þessi áhrif eru rakin til þess að túrmerik örvar hormónaniðurbrot lifrarinnar. Túrmerik eykur flæði meltingarvökva og þykir gott við lifrarbólgu, gulu og gallsteinum, uppþembu og vindgangi og til að lækka blóðfitu. Það er bólgueyðandi og þykir ákaflega gott gegn gigtar- og húðsjúkdómum ásamt því að örva blóðflæði og hafa góð áhrif á sár, gyllinæð og marbletti. Túrmerik hefur þar að auki bakteríudrepandi áhrif og er notað við hálsbólgu og hósta.

Kóríander

Bæði fræ og blöð eru notuð til lækninga, en mun algengara er þó að nota fræin þar sem þau hafa sterkari áhrif. Kóríander er bólgueyðandi og hefur róandi áhrif á uppþembu, vindgang og maga- og ristilkrampa. Það er einnig tuggið gegn andremmu og þá sérstaklega hvítlaukslykt. Kóríander hefur lengi verið talið kynörvandi og í indverskum grasalækningum er tegundin líka talin styrkja þvagrásarkerfið og verka sérstaklega vel gegn sýkingum á borð við blöðrubólgu. Kóríander er einnig talið lækka blóðsykur og kólesteról, en útvortis er það m.a. notað við höfuðverk, munnangri og gigt.

Broddkúmen

Broddkúmen er vel þekkt lækningajurt frá örófi alda en í matargerð er hún algeng í uppskriftum í Kína, Indlandi og Mið-Austurlöndum, sérstaklega í karríréttum og súrsuðu grænmeti. Enska heiti broddkúmens er „cumin“ og er tegundinni oft ruglað saman við íslenska kúmenið sem á ensku heitir „caraway“. Þetta eru tvær mismunandi jurtir þótt þær hafi áþekka virkni. Broddkúmen örvar meltingu og dregur úr vindgangi, uppþembu og maga- og ristilkrömpum. Í indverskum grasalækningum þykir broddkúmen gagnast vel við svefnleysi, kvefi og hita. Einnig er hefðbundið að nota fræin til að auka mjólkurmyndun. Rannsóknir á broddkúmeni hafa leitt í ljós að það lækkar bæði blóðsykur og blóðfitu og vinnur gegn beinþynningu.

Fennelfræ

Fennel á sér langa hefð sem lækningajurt. Fræin eru sá hluti plöntunnar sem er notaður til lækninga því þau innhalda virkar ilmkjarnaolíur. Fennelfræ eru vinsæl til að örva meltingu og draga úr vindgangi, uppþembu og maga- og ristilkrömpum. Þau eru bólgueyðandi, vatnslosandi og auka brjóstamjólk. Fennelfræ eru líka notuð við hálsbólgu, blöðrubólgu og magakveisu í ungbörnum. Þar að auki eru fræin gagnleg í augnskol við hvarmabólgu.

Gulróta- og graskerssúpa með kókosmjólk (vegan)

  • 500 g saxaðar gulrætur
  • 600 g grasker (butternut squash), afhýtt, fræhreinsað og skorið niður í teninga
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 15 g ferskt kóríander, smátt saxað
  • 1 laukur, fínt saxaður
  • 4 hvítlauksrif, fínt söxuð
  • 20 g ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt
  • 1 tsk. túrmerikduft
  • ½ tsk. sichuan pipar, malaður (má sleppa)
  • 2 msk. ólífuolía
  • 1 tsk. broddkúmenfræ
  • 1 tsk. fennelfræ
  • 1 tsk. kóríanderfræ
  • 2 msk. nýkreistur sítrónusafi
  • 1 l af vatni
  • 1 msk. grænmetiskraftur (ég nota duft frá Rapunzel)
  • 1½ tsk. salt
  • nýmalaður svartur pipar

Settu broddkúmen-, fennel- og kóranderfræin á pönnu og þurrristaðu á lágum hita í nokkrar mínútur, þar til þau fara að brúnast. Færðu þau yfir í mortél (eða kaffikvörn) og malaðu þar til þau verða að dufti. Hitaðu olíu í potti á miðlungshita og steiktu lauk, hvítlauk og engifer þar til allt er orðið mjúkt. Bættu gulrótunum, graskerinu, grænmetiskraftinum, kryddunum, sítrónusafanum og vatni og hitaðu að suðu. Lækkaðu hitann og leyfðu að malla í 25 mínútur, eða þar til grænmetið er mjúkt. Bættu kókosmjólkinni við undir lokin og maukaðu súpuna loks með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

Um höfundinn

Anna Rósa er grasalæknir, framkvæmdastjóri, rithöfundur og alþjóðlegur fyrirlesari. Fyrst og fremst er hún þó með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjá nánar
Anna Rósa grasalæknir